Geðhvarfasýki

 

crazy

Jæja, þá er komið að fyrsta blogginu. Það er langt og strangt
en samt einhvern veginn ekki nálægt því að vera öll sagan.

Ég gæti skrifað fræðilega og upplýsta grein um geðhvarfasýki. En þannig greinar eru auðfundnar á netinu. Þannig að ég ætla lýsa minni reynslu og minni upplifun, ásamt því að útskýra aðeins á einfaldan hátt. Vonandi veitir það einhverja innsýn í sjúkdóminn fyrir þá sem þurfa á því að halda.

 

Hvað er geðhvarfasýki?

Geðhvarfasýki er sveiflusjúkdómur. Hann er líka kallaður bipolar, tvískautasjúkdómur og geðhvörf. Einstaklingur með geðhvörf sveiflast á milli þunglyndis og örlyndis, eða maníu. Tímabil á milli þessarra sveifla eru mjög misjöfn. Svo eru til einstaklingar sem fara bara einu sinni á ævinni í maníu, en fara margoft niður í þunglyndi. Sumir fara í maníu í 3 daga, aðrir í 3 vikur. Það má segja að tilfellin séu eins misjöfn og þau eru mörg. Búið er að flokka sjúkdóminn niður í nokkra flokka eftir tíðni sveifla, geðhvörf I, geðhvörf 2 og hverfilyndi. En nóg um það.

Ég er með geðhvörf I, en mitt tilfelli er örlítið flókið. Það er vegna þess að ég er fíkill í þokkabót og var í neyslu frá 12 ára aldri. Það þýddi að allar mínar geðsveiflur og óeðlilega hegðun var í raun óútskýrð. Var ég svona vegna neyslunnar eða vegna geðhvarfanna? Fór ég í neyslu vegna geðhvarfanna eða fékk ég geðhvörf vegna neyslu?

 

Litla ég

 

File_000 (5)
8 ára

Mín saga á geðsviðinu byrjar allavega þegar ég er 8 ára. Þá var ég orðin ofsalega döpur lítil stúlka, eins og mamma mín orðar það. Mamma fór með mig á Barna- og unglingageðdeild og þar fór ég að hitta sálfræðinga, geðlækna, iðjuþjálfa og allan pakkann. Ég man rosalega lítið eftir tímanum þar, en mér fannst ég einhvern veginn alltaf vera að skipta um geðlækna og sálfræðinga. Það var enginn einn sem fylgdi mér í gegn.

Á fyrstu vikum mínum á BUGL lá í loftinu að ég væri þunglynd. Ég var látin gera alls konar hópavinnu með alls konar krökkum. Sumir voru með átröskun, aðrir voru illa farnir eftir ofbeldi. Enginn þeirra var mér samferða lengi heldur. Ég held að tími minn á BUGL hafi gert mömmu meira gott heldur en mér. Hún fékk ýmis ráð varðandi mig, skapið mitt, eirðarleysi og margt fleira sem foreldrar kunna ekki endilega að tækla. Það eru líklega fáir foreldrar undirbúnir fyrir andleg veikindi barna sinna, það er ekki beint það fyrsta sem maður kynnir sér þegar maður eignast lítið, heilbrigt kríli.

 

Unglingsárin

12 ára fór ég að drekka um helgar. Mér fannst ég hafa fundið
það sem mig vantaði í lífið

File_000 (4)
12 ára

þegar ég komst undir áhrif í fyrsta sinn. Léttirinn var svo mikill að drykkjan varð ómissandi partur af lífi mínu. Ég held að ég hafi í raun verið að reyna lækna það sem var að mér, hvað sem það nú var. Ég vildi bara líða betur.

Ég byrjaði á þunglyndislyfjum um svipað leyti, en þau gerðu ekkert gagn. Enda var það ekki þunglyndi sem var að plaga mig sem slíkt, heldur svakalegar sveiflur. Einn daginn var lífið mitt frábært og ég hafði stóra drauma sem ég talaði stöðugt um. Þann næsta var líf mitt ónýtt, ég var byrði á öllum í kringum mig og ég vildi bara deyja. Árin liðu, ég prófaði hvert þunglyndislyfið á eftir öðru og fór að nota fleiri vímuefni. Ég hætti öllum íþróttunum sem ég hafði æft í mörg ár.

File_000 (3)
15 ára

Ég fór í menntaskóla 16 ára en entist ekki í neinum skóla í meira en eina önn, eða varla það. Ég skipti um skóla, flutti á milli staða, skipti um vinnur og skipti um vini. Ég var stöðugt að reyna að breyta utanaðkomandi aðstæðum mínum, því ég áttaði mig ekki á því að það sem þyrfti að laga væri innra með mér. Neyslan tók völd og tók mig á skuggalega, ljóta og ofbeldisfulla staði. En það er önnur saga.

 

Greining

18 ára fékk ég greiningu í fyrsta sinn. Það hafði legið í loftinu um tíma en geðlæknirinn minn vildi ekki greina mig fyrr en ég var orðin 18 ára. Það er trúlega vegna þess að sveiflurnar sem ég upplifði eru ekki svo ósvipaðar gelgjuskeiðinu. Svona eins og túrbó-gelgjuskeið. Ég var ekki sannfærð um að ég væri með geðhvarfasýki. En mér létti samt að vita að kannski væri þá hægt að „laga“ mig. Ég byrjaði á lyfjum sem heita Lamictal. Þau reyndust mér vel, en ég var samt sem áður í neyslu alveg fram til tvítugs. Það er í raun ekkert að marka það sem gerðist á þeim tíma sem ég var í neyslu, því eins og ég sagði hér að ofan þá eru óeðlilegar hugsanir og hegðun líka einkennandi fyrir virkan fíkil.

Frá 18 ára aldri var ég lögð nokkrum sinnum inn á geðdeild Landspítalans, en ég hef ekki nákvæma tölu. Ég held það hafi verið þrjú skipti og u.þ.b. 1-2 vikur í hvert sinn.
Ég man lítið eftir dvölinni þar enda ekki beint með réttu ráði. Ég hafði ýmist verið lögð inn vegna mikilla skapsveifla eða mikils þunglyndis. Ég sótti svo HAM námskeið (Hugræn atferlismeðferð) hjá þeim tvisvar sem nýttist mér ekki vel, því ég var bara einfaldlega ekki fær um að breyta hugsunarhætti mínum á þessum tímapunkti.

Þegar ég hafði verið edrú í eitt ár fór ég svo aftur í greiningu, til þess að útiloka að ég hafi verið misgreind. Það gerist nefninlegt oft þegar fólk fer í greiningarferli í virkri neyslu.

 

Dæmi um einkenni án lyfja og meðhöndlunar

Þegar ég fór inn á Vog árið 2011 þá fór ég ekki með lyfin mín með mér. Ég hafði fram til þess verið dugleg að taka þau, svona miðað við hversu lítil regla var á lífi mínu á þessum tíma. Á Vogi fór ég í fráhvörf og var á hefðbundnum fráhvarfalyfjum þar inni, eins og flestir aðrir. Það fór hins vegar svo að á fjórða degi var ég í mikilli maníu. Ég hafði séð ofsjónir inni í herberginu mínu þar og hausinn var alveg á milljón. Ég hringdi í mömmu, sem sagði mér þá að lögreglan væri með símann minn. Ég gjörsamlega trylltist, rauk út af Vogi og fór rakleiðis heim til mömmu. Ég var mjög æst og henti mömmu upp við vegg en sem betur fer var frænka mín hjá henni til að stoppa mig af. Eftir það þá brunaði ég niður á Lögreglustöðina við Hverfisgötu og öskraði þar fyrir utan, fleygði fötunum mínum út um allt og hringdi svo í Neyðarlínuna því ég vildi fá að tala við „þann sem ræður“. Ég man að ég hugsaði svo mikið að mér leið eins og hausinn á mér myndi springa. Ég var líklega með tíu samsæriskenningar í gangi og fannst það vera upp á líf og dauða að fá símann minn til baka. Lögreglan kom svo og  sagðist ekki vera með neinn síma. Þá var ég viss um að mamma hefði logið þessu öllu sem hluta af einhverju alræmdu plotti gegn mér. Ég fór heim til hennar aftur og hún neitaði að hleypa mér inn eftir síðustu heimsókn. Þá brjálaðist ég á stigaganginum, eyðilagði handriðið og reyndi að kveikja í hurðinni hennar til að brenna mér leið inn. Eftir það kom lögreglan og ég var send niður á geðdeild Landspítalans og svo aftur inn á Vog.

Í sömu dvöl á Vogi þá reyndi ég að skera mig á púls með rakvélablöðum herbergisfélaga míns. Hún fékk gjörsamlega áfall þegar hún gekk inn í herbergið og allt var útatað í blóði. Auk þess hafði ég kastað mikið upp í ruslafötuna, en þegar ég verð mjög þunglynd þá kasta ég upp.

Þetta er frekar ljót mynd af sjúkdómnum en hún er samt sem áður mjög lýsandi.

 

Meðferð

Það var ekki fyrr en ég varð edrú sem ég leitaði mér aðstoðar samhliða lyfjagjöfinni. Þann 3.mars 2012 varð ég edrú og hef síðan þá gert ýmislegt til að meðhöndla sjúkdóminn minn.
Ég þurfti fyrst og fremst að finna leið til að viðhalda edrúmennskunni. Það gerði ég með því að vinna 12 sporin, en í þeirri vinnu lærði ég svakalega margt um sjálfa mig. Ég sá svart á hvítu hvað það var sem ég þurfti aðstoð við. Ég öðlaðist þá hugarfarsbreytingu sem ég hefði þurft í HAM námskeiðinu.

Ég leitaði til sálfræðings sem hjálpaði mér að vinna úr fortíðinni. Ég hitti geðlækninn minn reglulega sem fylgdist vel með mér og lyfjagjöfinni. Ég fór í endurhæfingu sem heitir Grettistak og er fyrir fíkla. Þar lærði ég um næringu, hreyfingu, fjármál og svo ótrúlega margt fleira. Ég fór í grúppur þar vikulega þar sem ég lærði að opna mig um hið daglega líf bara. 12 spora fundirnir hafa líka alltaf gert mér gott andlega, félagstengslin mín styrktust svakalega og ég kynntist fólki eins og mér. Fólki með fíkn og geðsjúkdóma.

Ég fór einnig í eins konar Sálarfræðslu, en það er þjálfun til þess að taka eftir einkennum sínum þegar þau koma. Í hýpó-maníu finnst mér oft erfitt að sjá að það sé eitthvað að hjá mér. En þetta er mjög mikilvægt fyrir mig, að vera meðvituð um hugsanir mínar og hegðun. Seinna fór ég svo aftur í hugræna atferlismeðferð hjá sálfræðingi sem reyndist mér líka mjög vel.

File_000 (1)
2016

Hvernig er sjúkdómurinn minn í dag?

Í dag hef ég verið edrú í rúm 4 ár, er á lyfjum sem heita Lithium ásamt þunglyndislyfjum. Ég er hjá Kvíðameðferðarstöðinni hjá sálfræðingi. Þar er ég í meðferð sem heitir EMDR og er rosalega öflug gagnvart áfallastreituröskun, sem er eitthvað sem fylgdi mér úr neyslunni. Ég hitti ennþá geðlækninn minn reglulega, hreyfi mig 5 tíma í viku, nota hugleiðslu mikið og er virk í félagslífi mínu hvort sem ég vil það eða ekki.

Það hefur komið fyrir að ég hætti á lyfjunum mínum því ég hélt ég væri bara læknuð. Þá hef ég ýmist grátið í nokkra daga, verið mjög æst og eirðarlaus og tekið brjálæðisköst. Ég hef sparkað í bílinn minn svo hann beyglaðist, rústað heimilinu, rifið bolinn á kærasta mínum í tvennt þar sem hann stóð í honum og sagt vinum mínum að fara til fjandans þegar þau höfðu ekkert gert. Alvarlegast var þó þegar ég hafði verið hætt á lyfjunum í rúma viku, en þá fór ég einmitt í hugrof. Þá fannst mér ég ekki stjórna neinu af því sem ég var að gera, en eina stundina var ég bara að spjalla við kærasta minn og þá næstu gekk ég inn á baðherbergi og skar mig á púls fyrir framan hann. Hann starði bara á mig orðlaus. Þegar ég sá svipinn á honum þá var eins og ég hafi rankað við mér og var skelfingu lostin yfir því sem ég hafði gert. Ég hugsaði bara: ,,Ég vil ekki deyja, ég vil ekki deyja!“ Ég skildi ekki hvað hafði gerst. Hvers vegna gerði ég þetta? Ég fór í framhaldi á Landspítalann og hitti geðlækninn minn sem setti mig á sefandi lyf. Þá var þetta manía sem hafði í för með sér þessa hvatvísi. Það er mjög algengt að sjálfsvíg geðhvarfasjúklinga séu framkvæmd í svona hvatvísi. En ég hef passað mjög vel upp á lyfin mín undanfarin 2 ár.

Ég finn ennþá fyrir sjúkdómnum mínum, en nú fer ég í svokallaðar hypo-maníur sem eru svona smávægilegar maníur. Það gerist u.þ.b. 4-5 sinnum á ári, endist í 2-3 vikur og ég verð ansi hvatvís og skynsemin verður aðeins í ólagi.
Dæmi um hypo-maníur hjá mér:

-Kaupi hluti sem ég hef ekki efni á eins og flugmiða erlendis, dýr húsgögn, snyrtivörur, föt og eiginlega bara allt mögulegt.
-Fæ þráhyggjur. Í síðustu hypo-maníu eyddi ég svakalega miklum pening í snyrtivörur, sem ég átti einfaldlega ekki til. Smá á hverjum degi. Gat ekki hætt að hugsa um snyrtivörur og íhugaði að breyta allri innréttingunni hjá mér til að gera aðstöðu fyrir allt dótið.
-Gef peninginn minn í stað þess að kaupa mat eða borga skuldir.
-Fæ skyndihugdettur sem ég verð að framkvæma strax. T.d. fara í Hagkaup um miðja nótt til að kaupa eitthvað sem mig vantar ekki endilega, en bara get ekki hætt að hugsa um það. Eða vaki alla nóttina til að þrífa, sem dæmi.
-Verð rosalega orkumikil með mikla hreyfiþörf. Þá er hætta á að ég kaupi mér árskort í ræktina og alls konar námskeið.
-Sef lítið. Stundum bara 2-3 tíma á nóttu.
-Byrja á einhverju verkefni. Stofna fyrirtæki, skrifa bók, skipulegg einhvern atburð o.s.frv. en oftast verður svo ekkert úr þessu. Tek oft á mig mikla ábyrgð.
-Hef mjög stuttan þráð á þessum tímabilum og litla þolinmæði. Hugsa af árásargirni en framkvæmi mjög sjaldan eftir því, ekki lengur. Á það samt til að brjálast og titra af reiði við minnstu atvik, en sem betur fer er það sjaldan. Ég verð pirruð oft yfir daginn, en það endist mjög stutt og ég er orðin ansi góð í að tækla það án þess að láta það bitna á öðrum.

Eftir svona tímabil tekur oftast við svona lægð hjá mér. Ég myndi ekki kalla það þunglyndi í dag. En ég vil þá bara vera heima í friði í nokkra daga, vil ekki mæta í skólann og sef mjög mikið. En vanlíðanin er ekki nærri því eins og hún var í den. Ég hef ekki fengið sjálfsvígshugsanir síðan ég byrjaði á Lithium.

Ég held að það sé ekki eitthvað eitt sem virkar á geðhvarfasýki, eins og að taka bara lyf. Ég held það sé svona samblanda af hlutum. Það hefur tekið nokkur ár fyrir mig að finna mína uppskrift en hún er þessi:

-Hreyfing. Sérstaklega úti. Þarf ekki að vera mikið, bara smá fersk loft. Mér finnst t.d. ótrúlega gott að taka stuttan göngutúr á Geirsnefinu með hundinn minn nokkrum sinnum í viku. Bara njóta veðursins (hehehe) og anda aðeins að sér lífinu.

-Sterkt net. Að vinir og fjölskylda séu meðvitaðir um sjúkdóminn. Ég þarf líka að vera meðvituð.

-Hugræn atferlismeðferð. Það þarf ekki að vera HAM námskeið. Hugræn atferlismeðferð snýst um að breyta hugsunarhættinum. Það eru til alls konar aðferðir.

-Að rækta andlegu hliðina. Okei ég veit þetta hljómar svolítið væmið! En með þessu meina ég t.d. hugleiðsla. Sumir fíla jóga, svett, trúfélög o.fl. En hugleiðsla er klárlega ómissandi fyrir mig.

-12.sporin. Fyrir mig voru það spor fyrir vímuefnafíkla, en ég held að ALLIR hafi gott af því að vinna sporin! T.d. Vinir í bata – það er fyrir alla. Set upplýsingar að neðan. Svo mæli ég klárlega með Al-Anon fyrir aðstandendur geðsjúkra. Það eru nefninlega mjög svipaðar afleiðingar fyrir þá aðstandendur eins og hjá þeim sem búa við alkóhólisma. Ég komst að því að margir í Al-Anon eru aðstandendur geðsjúkra. Um að gera að prófa sig áfram bara!

-Áhugamál! Basic.

-Að fara út og rækta félagslífið, þó mig langi að vera ein undir sæng!

-Skipulag. Eins og dagsplön til dæmis. Það er besti kvíðabaninn fyrir mig.

-Og að lokum, að opna sig. Hafa einhvern til að tala við.

help

 

Hvert er hægt að leita?

Ef þú heldur að þetta sé eitthvað sem á við þig, eða einhvern sem þú þekkir, þá er best að leita til heimilislæknis fyrst og segja honum frá því. Hann getur síðan vísað þér áfram ef þess gerist þörf. Geðheilbrigðiskerfnu er virkilega ábótavant en þó eru nokkrar leiðir til að fá aðstoð við greiningar, meðferðir og ráðgjöf. Þau helstu eru hér að neðan. Gangi þér vel.

 

Bráðamóttaka Geðdeildar LSH við Hringbraut. Ef um sjálfsvígshugsanir er að ræða, eða ef einstaklingur er sjálfum sér eða öðrum hættulegur þá er nauðsynlegt að leita þangað. Þeir taka hins vegar á móti öllum í viðtal, hvernig sem staðan er. Einnig er hægt að fá símaráðgjöf hjúkrunarfræðings á geðdeild í síma 543-4050 þegar hún er opin. Ef tilfellið er alvarlegt og geðdeildin er lokuð þá er hægt að leita á almennu Bráðamóttökuna í Fossvogi.

Geðdeild Sjúkrahússins á Akureyri. Sími 463-0100.

Geðhjálp. Starfsfólk Geðhjálpar er yndislegt, ég segi það af eigin reynslu. Hjá Geðhjálp er starfandi fagmenntaður ráðgjafi sem ætlað er að veita eftirfarandi þjónustu við fólk með geðraskanir og aðstandendur þeirra án endurgjalds.

  • Stuðnings- og matsviðtöl, sem miða að því að skilgreina vanda, veita upplýsingar og leiðbeiningar um viðeigandi úrræði eða meðferð.
  • Eftirfylgni bæði í formi símtala, viðtala sem og tölvupósts.
  • Móttaka kvartana vegna þjónustu

Ráðgjöfin getur farið fram með viðtali, símtali og tölvupósti. Henni er ætlað að vera leiðbeinandi en er ekki hugsuð sem meðferð eða vera meðferðarígildi.

Til að panta tíma eða óska eftir símaráðgjöf: 570-1700. Sjá nánar á http://www.gedhjalp.is

Geðheilsustöð Breiðholts. Það er á vegum þjónustumiðstöðvar Breiðholts og Heimaþjónustu Reykjavíkur. Þar er hægt að fá heimavitjanir og viðtöl frá geðteymi ef maður er búsettur í Breiðholti, Árbæ, Grafarvogi eða Grafarholti. Skilyrði fyrir þessari þjónustu eru að vera ekki í virkri neyslu og að vera þegar með greiningu á geðsjúkdóm. Sími 411-9600

Hjálparsími Rauða krossins. Síminn er opinn allan sólarhringinn og hægt er að fá ráðgjöf og stuðning varðandi kvíða, þunglyndi, efnahagsáhyggjur, vanlíðan eða sjálfsvígshugsanir. Síminn er gjaldfrjáls og ætlað fólki á öllum aldri. Sími: 1717.

Geðverndarfélag Íslands. Hjá félaginu starfar teymi sálfræðinga, geðlækna, geðhjúkrunarfræðinga, félagsráðgjafa, presta og fleiri. Sími: 552-5508

Sjónarhóll. Þangað geta foreldrar geðsjúkra barna leitað og fengið stuðning. Sjónarhóll er sameiginlegur grundvöllur aðstandenda barna sem eiga við langvarandi veikindi að stríða á einn eða annan hátt. Sími: 535-1900

Vinir í bata – Stjórnleysi almennt
Upplifirðu stjórnleysi í lífi þínu og að þú ráðir ekki alltaf við aðstæður?
Hefurðu einhvern tíman velt því fyrir þér að þig langaði til og/eða þú þyrftir á því að halda að skoða lífið þitt – hvert þú stefnir – hverjar tilfinningar þínar eru og hvernig þú getur bætt samskipti þín við annað fólk?
Veistu að Tólf sporin eru kjörið verkfæri til þess arna. Við erum mörg sem getum vitnað um það af eigin reynslu.
Heimasíða: http://www.viniribata.is

30 athugasemdir á “Geðhvarfasýki

  1. Frábært!

    Takk fyrir!

    Þú ert dugleg!

    Mig langar að vera meira eins og þú!

    Áfram þú!

    Ég hef einnig greinst með geðhvörf I og þess vegna langar mig að skrifa milljón orð en ég er bara of þreyttur, en ég mun fylgjast með þér 😀

    Virðingarfyllst, Jói (kemur fyrir) Maníski

    Líkað af 1 einstaklingur

Skildu eftir svar við Berglind Halla Jónsdóttir Hætta við svar