Um mig

IMG_0018

Hæ!
Ég heiti Súsanna Sif og er 26 ára gömul. Ég útskrifaðist sem sjúkraliði í desember 2017 og mun hefja lokaönn mína í Fjölbrautarskólanum í Breiðholti í vor. Ég bý ein með Perlu, tjúastelpunni minni í Reykjavík og starfa sem sjúkraliði á lungnadeildinni á Landspítalanum. Ég hef að vísu verið í veikindaleyfi síðan í október.

Já, ég er í framhaldsskóla. Ég hef verið í framhaldsskóla í 9 ár. Ástæðan er sú að frá 16 ára aldri barðist ég við að eiga eðlilegt líf. Ég skráði mig í skóla ár eftir ár en alltaf flosnaði ég upp úr náminu og féll á önnunum. Ýmist vegna þess að ég hafði enga stjórn á eiturlyfjaneyslu minni eða vegna geðrænna vandamála. En nú hef ég verið á beinu brautinni í tæp 6 ár og er alveg að verða búin með námið endalausa.

Framtíðarplön
Ég stefni á hjúkrunarfræðinám næsta haust við HA. Mig langar líka að læra áfengis- og vímuefnaráðgjöf þegar fram líða stundir, en draumurinn er að koma á fót meðferðarheimili fyrir ungmenni með tvíþættan vanda, þ.e. fíkn og geðræn vandamál. Ég legg mikið upp úr því að hjálpa öðrum, enda er það einn af hornsteinum bata míns. Vonandi næ ég að hjálpa einhverjum að skilja heim fíkilsins og raunverulega stöðu þeirra sem glíma við geðræn vandamál.

Ég spekúlera óhóflega mikið í hinu og þessu og hugsa mikið og því er um að gera að henda pælingunum á blað! Þar sem ég er óvirkur fíkill með geðhvarfasýki mun ég fjalla dálítið um þann heim sem ég þekki.

Ég fer inn á meðferðarstofnanir reglulega í von um að hjálpa öðrum að ná bata. Ég er enn að ná tökunum á þessu fullorðinslífi, enda dróst ég aðeins aftur úr. En þetta er allt að koma!

Krabbamein?!
Að vísu mætti ég annarri hindrun þetta árið, 2017. Í maí greindist ég með blóðkrabbamein. Það var tiltölulega hættulítið og mér var sagt að það yrði tæklað í sumar og ég þyrfti ekkert að pæla meira í því, að nærri allir næðu bata og lifðu eðlilegu
lífi. En eðlilegt líf er ekkert fyrir mig! Meinið kom aftur í október
og öllum til mikillarIMG_1977 undrunar hafði það stökkbreyst. Ég er nú með krabbamein sem kallast Peripheral T-Cell Lymphoma á 4.stigi. Ég byrjaði í samsettri lyfjameðferð í nóvember sl. og er að fikra mig áfram í þessu öllu saman. Þetta gerðist allt saman mjög hratt. Ég var í góðum málum í september, fór til Spánar að njóta lífsins og fagnaði því að vera orðin heilbrigð. En í október breyttist allt. 7. nóvember fékk ég greininguna og viku síðar, þann 14. nóvember, fór ég í fyrstu lyfjameðferð. En ég útskrifaðist þó núna í desember! Ég ætlaði sko ekki að láta þetta stoppa mig, þó það hægi kannski örlítið á mér. En það liggur ekkert á!

Mig langar að nota þennan vettvang til þess að lýsa sýn minni á lífið, deila reynslunni og fá útrás! Hvort sem um ræðir fíkn, krabbamein eða geðræn vandamál! Auk þess hef ég milljón skoðanir á milljón öðrum hlutum, þannig hér verður nóg að gera! Ég er líka mjög virk á Snapchat undir nafninu: susannalitla, en það er mynd af því hér til hliðar!