Þakklætiskrukkan

Um hver áramót set ég mér það markmið að vera jákvæðari. Ég er ekki mikið fyrir að strengja nein heit, aðallega vegna þess að ég ætla mér allan heiminn og eftir viku er ég búin að gleyma því. Það sama á við um markmið mitt að vera jákvæðari. Það byrjar vel en þegar líður á janúarmánuð er farið að halla undan og ég hætt að reyna eitthvað sérstaklega að vera jákvæð.

Í fyrra gerðu nokkrir vinir mínir svolítið sem vakti áhuga minn. Þau skrifuðu niður þá jákvæðu hluti sem gerðust og geymdu miðana til áramóta. Svo lásu þau miðana saman á gamlárskvöld og litu þannig yfir árið  og það góða sem 2016 færði þeim.

Ég gat ekki annað en tekið þau til fyrirmyndar og ætla því að gera slíkt hið sama árið 2017. Ég kíkti í Tiger og fann fallega krukku á 1000 kr. ásamt litlum merkispjöldum. Þann sama dag lenti ég í leiðinlegum aðstæðum og fékk kvíðakast. Þegar ég kom heim stillti ég upp krukkunni og tók upp miðana, en efaðist um að ég myndi skrifa eitthvað því ég var enn frekar kvíðin og leið ekkert svo vel. En að sjálfsögðu fann ég hluti sem ég gat verið þakklát fyrir! Ég setti nokkra miða í krukkuna og viti menn, mér leið einhvern veginn miklu betur!

Það er nefnilega ekki hægt að vera fúll og þakklátur á sama tíma! Trúirðu mér ekki? Prófaðu það!

Síðan ég setti upp krukkuna hef ég ómeðvitað verið í stöðugri leit að nýjum hlutum til að skrifa niður. Ég er óvart miklu þakklátari fyrir það sem ég hef og rembist við að sjá allt það jákvæða við líf mitt svo ég geti sett fleiri miða í hana. Ég hlakka til að fylla þakklætiskrukkuna með ykkur árið 2017!

Færðu inn athugasemd