Þegar ég var barn vildi ég verða eitthvað. Eitthvað stórt. Að sjálfsögðu var draumurinn að verða næsta Britney Spears og 12 ára söngnám kom mér næstum því þangað, eða hitt þó heldur. Ég elskaði íþróttir og þökk sé mömmu og pabba þá prófaði ég ýmislegt. Ég hélst þó allra lengst í jazzballett og fótbolta, sem ég æfði í 7 ár. Að auki fóru nokkur ár í sjálfsvarnaríþróttir.
Mamma er nefnilega hörkukerla. Sjálf hefur hún verið í námi síðan ég man eftir mér! Að læra kokkinn, læknaritarann, kennarann og hvaðeina. Hún ól þá skoðun upp í mér að allt nám gagnist manni, að tíminn sem fari í nám sé aldrei tapaður tími. Svo ef við ræðum aðeins pabba þá er hann vinnusamasti maður sem ég hef kynnst. Metnaður hans í starfi er gríðarlegur og ótrúlega aðdáunarverður. Maður spyr sig hvort þau hafi tekið vitlaust barn af fæðingardeildinni. Já eða þar til maður sér okkur mæðgurnar hlið við hlið.
Nú hef ég sagt ykkur frá fortíðinni minni. Dópista-Súsönnu. Stelpunni sem var alltaf vakandi. Apótekaranum. Þegar ég hugsa til hennar þá skil ég ekki hvernig ég og hún getum verið sama manneskjan. Metnaðurinn varð að engu þegar neyslan tók völd. Það eina sem ég hugsaði um var hvernig ég gæti reddað mér næsta skammti og skammtinum á eftir honum. Peningar og dóp, peningar og dóp. Svo fór nú ágætis tími í að læra á þennan heim. Hvernig er best að brjótast inn, svindla á þvagprufu og vefja jónu. Hvern er best að þekkja og hver er með besta kókið. En undir niðri vildi ég ennþá verða eitthvað. Munurinn var bara sá að ég hafði enga trú á að ég gæti það – eins og 7 ára Súsanna sem hafði heiminn í höndum sér. Samfélagið sagði mér líka að ég gæti aldrei orðið neitt.
Þegar ég byrjaði batagöngu mína árið 2012 var eina markmiðið mitt að hætta að nota eiturlyf. Ég vænti einskis annars því ég trúði tæplega að það myndi takast í þetta skiptið. Smátt og smátt fóru augu mín að opnast fyrir þeim valmöguleikum sem lífið hafði að bjóða! Ég átti svo erfitt með mig í byrjun skólagöngunnar að ég tók áhugasviðspróf. Ekki vegna þess að ég hafði engan áhuga á námi, heldur því ég hafði áhuga á ÖLLU! Að því loknu var ég eiginlega enn ráðvilltari. En allt benti til þess að ég myndi starfa á heilbrigðis- og velferðarsviðinu.
Ég er oft spurð hvers vegna ég sé í sjúkraliðanámi. Það er vegna þess að það er hagnýtt, ótrúlega skemmtilegt og upplýsandi. Ég fæ líka alltaf sömu undrandi viðbrögðin þegar ég segi að ég ætli samt ekki að starfa sem sjúkraliði. Ég vil fara í áfengis- og vímuefnaráðgjöf. Ég vil starta nýju meðferðarúrræði fyrir ungmenni með tvíþættan vanda. Ég vil læra snyrtifræði. Ég vil læra förðunarfræði. Ég vil læra frönsku og spænsku. Ég vil læra táknmál. Ég vil læra.
Það er heila málið. Ég vil læra! Alla daga, alla ævi. Hvort sem það eru nýjir mannasiðir eða verkfræði. Því það mun alltaf nýtast mér. Það sem ég lærði í neyslu mun líka nýtast mér – og vonandi öðrum. Það var ekki tapaður tími. Þannig lít ég líka á hversdagslegu erfiðleikana. Þeir munu koma einhverjum að gagni.
Þið hafið kannski í huga þegar þið sjáið sjúskaðan dópista næst að hann á líka drauma einhvers staðar undir niðri. Kannski verður hann næsti Bill Gates?